Hestur í fóstur reiðnámskeið eru upplögð fyrir börn sem hafa áhuga á hestum en hafa ekki hest né aðstöðu til að fara á hestbak. Að taka hest í fóstur getur verið góður undirbúningur ef maður hefur áhuga á að skella sér í hestamennskuna.
Á námskeiðinu fá börnin úthlutaða hesta sem þau sjá um eins og sinn eigin. Börnin læra að hirða um hestana og fara í útreiðartúra. Þau munu læra að kemba, leggja á og ríða út auk þess sem þau taka þátt í almennri umhirðu hestanna, t.d. setja sag í stíur, hreinsa gerði og gefa.
Þetta er liður í því að kynna fyrir börnunum hvað felst í því að eiga hest. Þátttakendur fá góða leiðsögn og þeim verður leiðbeint af þaulreyndum starfsmönnum okkar, fá góða innsýn inn í heim hestamennskunnar og öðlast mikilvægan skilning á því að hestamennska er ekki bara fólgin í því að hoppa í hnakkinn og ríða út.
Námskeiðið stendur yfir í 12 vikur og byrjar fyrsta námskeiðið ársins 2023 10. janúar og síðasta námskeiðinu lýkur 2. apríl.